Pétur G. Markan bæjarstjóri í Hveragerði segir aðkomuna að regnbogafánanum í Skólamörk í Hveragerði í morgun hafa verið ömurlega. Fáninn var málaður á götuna í gær í tilefni af Hinsegin dögum sem nú standa yfir. Skemmdarverk voru unnin á fánanum í nótt og hatursorðræða rituð á hann.
„Þetta eru vonbrigði. Við vorum hérna í gær að mála. Ungviði og eldri,“ segir Pétur og að það hafi verið mikil vonbrigði að koma svo að fánanum eins og hann var í morgun. Á sama tíma væri þessi hatursorðræða góð áminning um að grundvallarþættir í samfélagi eins og frelsi, virðing og mannréttindi séu ekki sjálfgefin eða sjálfsögð réttindi. Það þurfi að viðhalda baráttunni.

Hann segir þennan hatursáróður stinga í stúfa við það sem Hvergerðingar standi fyrir. Samfélagið sé hlýtt og opið og þau vilji standa fyrir því.
„Við mætum þessu með því að mála yfir þessi skilaboð, við mætum þessu með því að stækka fánann og mætum þessu með því að gefa þessum aðilum blóm og tökum þá með í faðminn.“

Pétur segir þetta augljóslega hatursorðræðu og brugðist sé við því með viðeigandi hætti. Lögreglan hafi þegar tekið þetta út en að fyrst og fremst vilji þau mæta þessu með kærleika og alls ekki þagga málið niður. Því hafi hann viljað til dæmis vekja athygli á þessum skemmdarverkum áður en það yrði málað yfir þau.
„Þetta er ekki eðlilegt og við þurfum að tala út þetta óyndi í samfélaginu til þess að eyða því.“

Til rannsóknar hjá lögreglu
Hann segir ekki vitað hver var að verki og það sé verkefni annarra að komast að því. Verkefna bæjaryfirvalda sé að taka utan um verkefnið og eyða út hatrinu.
Hann segir að umræðan verði tekin upp meðal fullorðinna og barna. Hatrinu sé aðeins úthýst með því að ávarpa það.
„Okkar svar er alltaf opnara samfélag og meiri kærleikur. Meiri mannréttindi og meiri uppfræðsla. Út með hatrið og kærleikann um allt.“