Skoðun

Fær­eyingar góð fyrir­mynd!

Björn Bjarki Þorsteinsson skrifar

Einstaka alþingismenn sem og aðrir ráðamenn virðast nú vera vakna til lífsins eftir gott sumarfrí og blanda sér í umræðu um ástand ýmissa innviða hér á landi, þ.m.t. ástands í vegamálum.

Undirritaður hefur tjáð sig um vegamál og þá sérstaklega á Vesturlandi undanfarin misseri því okkur hér í þeim landshluta sem um ræðir svíður mjög undan þeirri vondu stöðu sem uppi er í vegamálum og þá einna helst í Dölunum þó vondir vegir finnist víðar á Vesturlandi.

Og af hverju sting ég niður „penna“ núna og vel þá fyrirsögn sem hér að ofan stendur ?

Jú, fyrr í dag var ég minntur á frétt sem birtist á Vísi 23. maí sl. þar sem fyrirsögnin er „Segir sam­stöðu lykilinn að jarð­ganga­gerð Fær­eyinga“, sjá hér slóð á fréttina sem Kristján Már Unnarsson skrifaði.

Ágætur kunningi minn minnti mig á þessa frétt í morgun í ljósi þess að ég hafði deilt henni meðal minni vina á einum af samfélagsmiðlunum og minntist á hvort ekki væri rétt að minna á og vekja upp umræðu um þá nálgun sem vinir okkar í Færeyjum viðhafa ?

Það má segja að það ríki þjóðarsátt í því góða landi, meðal stjórnmálamanna og annarra ráðamanna, um að samgöngur og tengingar á milli landshluta og bæja séu í forgangi og þjóðin hefur áorkað, ein og sér, að klára hvert stórvirkið af öðru með gerð jarðgangna og annarra samgöngumannvirkja og í fréttinni segir að Hvalfjarðargöngin hafi reynst þeim innblástur við gerð þeirra áætlana og framkvæmda sem um ræðir.

Færeyskum stjórnmálamönnum hefur auðnast að ná sátt um að það verði að tengja landið saman svo vitnað sé til orða eins af ráðherrum þar í landi – Ísland er stórt land og strjálbýlt, við þurfum nálgun sem þessa hér á landi til að tengja byggðirnar saman og það hvernig til hefur tekist, bæði í Færeyjum og já eins varðandi Hvalfjarðargöng, getur og á að vera okkur innblástur í þeim efnum.

Tökum Færeyinga okkur til fyrirmyndar og gerum markvissar áætlanir um uppbyggingu vega á Íslandi, landinu og landsmönnum öllum til heilla !

Höfundur er sveitarstjóri Dalabyggðar.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×