Björgvin og Sandra trúlofuðu sig í fyrra á afmælisdaginn hans Björgvins þegar Sandra gaf honum hring í afmælisgjöf. Þau gengu síðan í það heilaga þann 17. ágúst í Fríkirkjunni í Hafnarfirði og héldu stærðarinnar veislu.
„Ég og Sandra vorum kærustupar, en ekki núna. Núna erum við hjón,“ sagði Björgvin þegar fréttastofa kíkti í heimsókn í dag.
Hægt er að horfa á sjónvarpsfrétt um heimsóknina í spilaranum hér fyrir neðan.
Þau búa bæði í Stuðlaskarði og þegar þau voru orðin staðráðin í að gifta sig var ekki aftur snúið.
„Sandra, hún er mjög góð og hún er konan mín. Ég elska hana,“ segir Björgvin.

En hvað er það besta við Björgvin?
„Ég elska hann. Hann er krútt,“ segir Sandra.
Foreldrarnir segja að gleði fylgi því alltaf að vera foreldri barns með Downs. Brúðkaupið var með þeim fyrstu milli tveggja einstaklinga með Downs hér á landi.

„Við áttum ekki von á þessu,“ segja Kolbrún Hauksdóttir og Valgeir Eyjólfsson, foreldrar Söndru.
„Maður leiddi hugann ekkert að því þannig lagað en þetta er ekkert sem var í kortunum,“ segir Gunnar Rúnar Jónsson, faðir Björgvins.

Flestir sem fóru í brúðkaupið eru sammála um það að þetta hafi verið skemmtilegasta veisla sem þau hafi farið í.
„Þetta var svo rosalega einlæg athöfn og veislan var alveg í þeirra anda. Ofboðslega mikil gleði og mikil gleði hjá gestum líka,“ segir Elísabet Hansdóttir, móðir Björgvins.

„Þetta var það mikil gleði í hjartanu að ég táraðist margsinnis,“ segir Gunnar Rúnar.
En það var húmoristinn Björgvin sem fékk að eiga lokaorðin.
„Í Jesú nafni. Takk fyrir.“