Skoðun

Kepp­endur, fyrir­myndir og for­dómar

Guðmundur Ingi Guðbrandsson skrifar

Í dag hefst Ólympíumót fatlaðra, Paralympics, í París. „Ég er ekki að leika mér, ég er að keppa“ er yfirskrift herferðar sem Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra stendur fyrir í aðdraganda mótsins. Þetta er vitundavakning um fordóma og fornfáleg viðhorf sem fatlað íþróttafólk verður gjarnan fyrir. Þau eru oft hlaðin lofi fyrir „að taka þátt“ í íþróttum, en ekki vegna hæfileika, dugs og keppnisskaps. Þetta er niðrandi viðmót og er því miður enn við lýði víða.

Þó margt sé enn óunnið, þá er metfjöldi kvenna og metfjöldi þjóða skráð til leiks í Paralympics í ár, sem er verulega ánægjuleg þróun. Meðal íslenskra keppenda eru fimm afreks íþróttamenn og -konur sem etja munu kappi í sundgreinum og kúluvarpi á Paralympics í París. Þau eru mikilvægar fyrirmyndir fyrir börn og unglinga sem dreymir um að ná langt í keppnisíþróttum.

Árangri afreksfólksins okkar í París ber að fagna. En á sama tíma skulum við líta okkur nær. Einungis fjögur prósent fatlaðra barna á Íslandi eru virk í íþróttastarfi og er það allt of lágt hlutfall. Eldhugar hjá íþróttahreyfingunni (ÍSÍ, UMFÍ og ÍF) og samtökum foreldra fatlaðra barna settu málið á dagskrá og fengu þrjú ráðuneyti í lið með sér, ráðuneyti félags-, mennta- og heilbrigðis. Átaksverkefnið Allir með hefur það að markmiði að fjölga tækifærum fyrir fötluð börn hjá almennum íþróttafélögum. Ég er bjartsýnn á framhaldið og er fullviss um að þetta framtak gefi fleiri fötluðum börnum kost á láta drauma sína rætast – til dæmis með því að keppa á Paralympics.

Ég verð þess heiðurs aðnjótandi að heimsækja leikana í París um komandi helgi. Ég hlakka til að hvetja afreksfólkið okkar áfram og fagna árangri þeirra.

Höfundur er formaður VG og félags- og vinnumarkaðsráðherra.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×