Í yfirlýsingu frá héraðsstjóranum Oleh Syniehubov kemur fram að sprengjur hafi lent á fimm stöðum í borginni. Um sé að ræða eldflaugar sem Rússar hafi skotið á loft frá Belgorod héraði. Talsmaður forseta Úkraínu segir sprengjuárásirnar sérstaklega ætlaðar til þess að valda almennum borgurum í landinu skaða.
Á meðan hafa bardagar haldið áfram í Rússlandi en Úkraínumenn fullyrtu í dag að þeir hefðu náð valdi á meira landsvæði í Kúrsk héraði síðasta sólarhringinn. Enn fremur fullyrða þeir að þeim hafi tekist að halda aftur af gagnsókn Rússa í austurhluta Úkraínu. Þeir hafi misst 36 manns í orrustum það sem af er degi í dag og 58 manns í gær.
Rússnesk stjórnvöld hafa á meðan fullyrt að rússneska hernum hafi tekist að leggja undir sig þrjú úkraínsk þorp í austurhluta landsins það sem af er degi. Ekkert lát er á átökum í landinu sem staðið hafa yfir síðan Rússar réðust inn í landið í febrúar 2022.