Fyrir leik dagsins var FHL þegar komið upp í Bestu deildina en Fram þurfti sigur til að skáka Gróttu í baráttunni um sæti í þeirri Bestu. Það var aldrei spurning hvort liðið færi með sigur af hólmi en Fram vann 5-0 sigur.
Murielle Tiernen kom Fram yfir strax eftir sjö mínútna leik. Sara Svanhildur Jóhannsdóttir bætti við öðru marki Fram eftir tuttugu mínútna leik og Murielle var aftur á ferðinni eftir rúman hálftíma. Aðeins mínútu síðar kom Mackenzie Elyze Smith heimakonum í 4-0.
Þvílíkt JÚNÍT þetta lið!
— Fram (@FRAMknattspyrna) September 7, 2024
📸 @Kidditr pic.twitter.com/cMNW6g1pfk
Murielle fullkomnaði svo þrennu sína með sínu 13. marki á leiktíðinni örskömmu síðar og staðan 5-0 í hálfleik. Svo virðist sem bæði lið hafi ákveðið að fleiri mörk væru óþarfi og lauk leiknum með 5-0 sigri Fram.
Bæði lið leika því í Bestu deild kvenna á næstu leiktíð á meðan Selfoss og ÍR falla niður í 2. deild. Á vef Knattspyrnusambands Íslands má sjá lokastöðu deildarinnar.