Aðgerðirnar voru kynntar á blaðamannafundi í júní og fjölgar nú úr 14 í 25. Þær snúa m.a. að eflingu meðferðarúrræða, samfélagslögreglu og vettvangsstarfs Flotans, auk eflingar þjónustu við börn í öllum sveitarfélögum á grundvelli farsældarlaga. Löggæsla verður sýnilegri og eftirfylgni vegna brota barna og ungmenna aukin. Komið verður á fót skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins og úrræði til að vinna með öll ofbeldismál barna. Þá verður undirbúið samfélagsátak í virku samtali við börn og ungmenni, foreldra og aðila sem hafa aðkomu að málefnum barna.
Aðgerðir er snúa að samfélagslögreglu, Flotanum, ungmennastarfi í Breiðholti, svæðisbundnu samráði um allt land og eflingu Saman-hópsins til eflingar foreldrastarfs hafa þegar farið af stað.
Með aðgerðunum er ætlunin að sporna við þróun í átt að auknu ofbeldi, auka forvarnarstarf og leiða saman fjölbreytta þjónustu- og viðbragðsaðila í samstilltu átaki gegn vaxandi ofbeldi meðal barna og ungmenna á Íslandi.
Mikil samvinna hefur átt sér stað þvert á ráðuneyti og aðila sem starfa að málefnum barna við að kortleggja birtingarmyndir ofbeldis gagnvart og meðal barna og ungmenna. Aðgerðirnar byggja á þessari vinnu.
Aðgerðahópur um aðgerðir vegna ofbeldis meðal barna og gegn börnum hefur þegar tekið til starfa. Hópurinn mun forgangsraða aðgerðum og hrinda þeim í framkvæmd. Árangur af aðgerðum verður metinn reglulega og þær aðlagaðar eftir þörfum.
Aðgerðirnar eru:
- Auka þverfaglega nálgun í ofbeldismálum meðal barna
- Styðja við meðferðarúrræði Barna- og fjölskyldustofu
- Koma á verklagi fyrir ósakhæf börn og úrræðum fyrir börn sem beita alvarlegu ofbeldi
- Endurskoða meðferð mála og úrræði fyrir sakhæf börn
- Efla samfélagslögreglu
- Innleiða svæðisbundið samráð um allt land
- Efla Landsteymi Miðstöðvar mennta- og skólaþjónustu sem styður við börn, foreldra og skóla
- Setja á fót úrræði fyrir ungmenni 16–17 ára sem eru hvorki í vinnu né námi (NEET)
- Efla ungmennastarf í Breiðholti
- Efla Flotann – flakkandi félagsmiðstöð
- Auka fræðslu og forvarnir – samfélagsátak
- Virkja foreldrastarf í umhverfi barna – SAMAN hópurinn
- Hefja alþjóðlegt samvinnuverkefni um sjálfbært samfélag
- Samhæfa aðgerðir gegn ofbeldi og móta stefnu til framtíðar
- Koma á skimun fyrir ofbeldi í grunnskólum landsins
- Útbúa leiðbeiningar fyrir heilbrigðisstarfsfólk til að bregðast við vegna limlestinga á kynfærum barna
- Uppfæra og samræma verklag hjá öllum heilbrigðisstofnunum landsins í heilbrigðisþjónustu við börn sem eru þolendur ofbeldis
- Útbúa fræðsluefni fyrir heilbrigðisstarfsfólk um rétt viðbrögð og verklag
- Skýra samskipti barnaverndar, lögreglu og heilbrigðisþjónustu um afdrif mála hjá barnavernd
- Samræma á landsvísu verklag við heilbrigðisþjónustu sem og réttarlæknisfræðilegar skoðanir og sýnatökur þegar grunur er um að barn hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi
- Móta framtíðarsýn heilbrigðisþjónustu við börn sem búa við ofbeldi
- Auka viðbragð og sýnilega löggæslu
- Auka stuðning við 1., 2. og 3. stigs þjónustu í öllum sveitarfélögum vegna farsældar
- Styðja við innleiðingu framkvæmdaáætlunarinnar í barnavernd 2023–2027
- Auka eftirfylgni vegna brota barna og ungmenna