Ødegaard haltraði af velli í leik Noregs og Austurríkis í Þjóðadeildinni 9. september og lék ekki með Arsenal í sigrinum á Tottenham á sunnudaginn.
Mikel Arteta, knattspyrnustjóri Arsenal, hefur nú greint frá því að meiðsli Ødegaards séu nokkuð alvarleg.
„Í myndatökunni sáust skemmdir í kringum liðböndin í ökklanum svo við munum sakna hans,“ sagði Arteta á blaðamannafundi fyrir leik Arsenal gegn Atalanta í Meistaradeild Evrópu sem fer fram í kvöld.
„Þetta eru veruleg meiðsli svo við munum vera án hans um tíma. Vonandi ekki í einhverja mánuði.“
Sem fyrr sagði mætir Arsenal Atalanta í kvöld og á sunnudaginn er svo komið að leik gegn Englandsmeisturum Manchester City.
Leikur Atalanta og Arsenal hefst klukkan 19:00 í kvöld og verður sýndur beint á Vodafone Sport.