Frávísunarmálin eru 622 talsins það sem af er ári en þau voru 439 í fyrra, að því er kemur fram í yfirlýsingu frá lögreglustjóranum á Suðurnesjum sem birtist á vefsíðu lögreglunnar í dag. Þar er þróunin í aðgerðum lögreglu og tollgæslu í slíkum málum frá því að Ísland hóf fulla þátttöku í Schengen-landamærasamstarfinu árið 2001 sögð „einstök“.
„Það er út af fyrir sig áhyggjuefni að ekki hafi tekist betur til í áranna rás að halda uppi öflugra landamæreftirliti og þá ekki síst á innri landamærum,“ segir í yfirlýsingunni.
Eftirlitið á innri landamærum Schengen-svæðisins skipti íslenska þjóð gríðarlega miklu máli þar sem hrikti í stoðum landamæraeftirlits í Evrópu. Áherslan hafi verið á ytri landamæri Schengen en innri landamærunum lítill gaumur gefinn.

Einn Íslendingur af nítján sem sitja inni
Lögreglan á Suðurnesjum býr við aðstöðuleysi þar sem aðeins hefur verið hægt að nota fangaklefa lögreglustöðvarinnar í Reykjanesbæ frá því í október í fyrra en stöðin er að öðru leyti ónothæf, að sögn lögreglustjórans. Ekki stendur til að endurbótum á stöðinni ljúki fyrr en í febrúar. Fátt bendi til þess að sú áætlun standist.
Fram kemur að af þeim nítján sem sátu í gæsluvarðhaldi vegna aðgerða lögreglu, aðallega á Keflavíkurflugvelli, sé einn Íslendingur. Aðrir séu frá Gana, Egyptalandi, Frakklandi, Súrínam, Hollandi, Kanada, Georgíu, Marokkó, Tékklandi, Brasilíu og Kólumbíu. Flestir þeirra komi hingað frá öðru Evrópulandi.
Ellefu þeirra sem sitja inni voru teknir vegna innflutnings á ólöglegum fíkniefnum. Aðrir vegna meintra brota á útlendingalögum og gruns um mansal.