Í tilkynningu frá lögreglunni segir að málin hafi verið tilkynnt til lögreglu í gærmorgun en önnur verslunin er í Kópavogi og hin í Reykjavík. Þá segir að rannsókn málsins sé umfangsmikil. Lögregla hafi farið í húsleitir sem og lagt hald á tvö ökutæki.
Í tilkynningu lögreglu segir að miklum verðmætum hafi verið stolið úr verslununum. Fjallað var um innbrotin í fréttum í gær en þá kom fram að um væri að ræða verslanir Elko og að fjölmörgum farsímum hafi verið stolið.
„Fjórmenningarnir voru handteknir á höfuðborgarsvæðinu og á Keflavíkurflugvelli, en þrír til viðbótar eru jafnframt í haldi lögreglu vegna málsins,“ segir í tilkynningu.
Þá kemur fram að ekki liggi fyrir ákvörðun um það hvort lögregla krefjist gæsluvarðhalds yfir hinum þremur. Allir sjö eru erlendir ríkisborgarar.