Skoðun

Svikin lof­orð gagn­vart börnum?

Hildur Rós Guðbjargardóttir skrifar

Á kjörtímabilinu 2002-2006 var Hafnarfjörður undir stjórn Samfylkingarinnar fyrst allra sveitarfélaga til að taka upp frístundastyrk fyrir börn og ungmenni. Markmið með styrknum er að gera börnum kleift að taka þátt í íþrótta- og tómstundastarfi óháð efnahag fjölskyldna og að efla íþrótta- og annað forvarnarstarf. Allar götur síðan hafa fulltrúar Samfylkingarinnar verið ötulir talsmenn styrksins.

En það er nefnilega það, frístundastyrkurinn er eitt öflugasta tæki sem sveitarfélög hafa til að auka þátttöku barna og ungmenna í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Þátttaka í slíku starfi er ein öflugasta forvörnum sem völ er á.

Í huga meirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks er frístundastyrkurinn ekki merkilegri en svo að meirihlutinn samþykkti ekki tillögur Samfylkingarinnar í bæjarstjórn um að lækka aldursviðmiðin úr 6 ára í 5 ára og hækka frístundastyrkinn næstu áramót svo hann yrði 65.000 kr. fyrir hvert barn frá og með 1. Janúar 2025 og 75.000 kr. frá og með 1. Janúar 2026. En frístundastyrkurinn í Hafnarfirði hefur ekki fylgt verðlagsþróun og er lægri en í öðrum sveitarfélögum á Höfuðborgarsvæðinu. Og miklu lægri en í Reykjavík, þar sem hann er 75.000 kr. á hvern einstakling.

Hljóð og mynd fara ekki saman

Það er mér ráðgáta af hverju það gerist, þegar tillögur koma fram sem snúa að því að styðja frekar við barnafjölskyldur í Hafnarfirði þá mæta þær andstöðu meirihlutans. Fyrst var það þessi mikla andstaða Sjálfstæðisflokksins við gjaldfrjálsar skólamáltíðir í boði ríkisins. Bæjarstjóri í broddi fylkingar lýsti endurtekið andstöðu sinni, þrátt fyrir að í meirihlutasáttmála Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins væri kveðið á um að á kjörtímabilinu yrðu markviss skref tekinn í átt að gjaldfrjálsum skólamáltíðum. Aftur samþykkja þau ekki að hækka frístundastyrkinn eða lækka aldursviðmiðin. Þess má þó geta að í meirihlutasáttmála Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins sé talað um að lækka aldursviðmiðin fyrir frístundastyrkinn niður í þriggja ára aldur. Nú er síðari hluti kjörtímabilsins hafinn og það virðist augljóst að engin áform eru uppi um að standa við þessi gefnu loforð. Hljóð og mynd fara ekki saman.

Höfundur er bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×