Jóhann lék nánast allan leikinn en var skipt af velli í uppbótartíma. Það var Spánverjinn Cristian Tello, fyrrverandi leikmaður Barcelona og Betis, sem skoraði eina markið í dag, í blálok fyrri hálfleiks.
Þar með hefur Al Orobah nú unnið tvo deildarleiki í röð, en tapað í Konungsbikarnum í millitíðinni, eftir að hafa byrjað tímabilið á þremur deildarleikjum án sigurs. Liðið er núna með sjö stig í níunda sæti af átján liðum. Damac er í 16. sæti.
Rúnar mætti hollensku meisturunum
Rúnar Þór Sigurgeirsson var í byrjunarliði Willem II sem mætti meistaraliði PSV Eindhoven í hollensku úrvalsdeildinni. PSV hafði betur, 2-0, með mörkum bandaríska landsliðsmannsins Ricardo Pepi í fyrri hluta seinni hálfleiks.
PSV er því á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir sex leiki, tveimur stigum fyrir ofan AZ, en Willem II er með átta stig í níunda sæti deildarinnar.