Leikurinn var mjög kaflaskiptur, Veszprém byrjaði vel og tók þriggja marka forystu, Magdeburg fylgdi því svo eftir með frábæru áhlaupi. Ómar Ingi og Gísli Þorgeir fóru þar fremstir í flokki með 5 mörk og 5 stoðsendingar samanlagt í fyrri hálfleik.
Aftur byrjaði Veszprém hins vegar betur í seinni hálfleik og skoraði fimm mörk í röð, en Magdeburg neitaði að gefast upp, fékk ekki á sig mark í síðustu þremur sóknunum og jafnaði leikinn undir blálokin.

Þegar í framlenginguna var komið virtist leikurinn því vera að sveiflast meira í átt að Magdeburg sigri, en markvörður Veszprém steig upp á ögurstundu. Varði vel tvær sóknir í röð og hjálpaði sínu liði að vinna HM félagsliða í fyrsta sinn.
Bjarki Már Elísson er leikmaður Veszprém en tók ekki þátt í leik kvöldsins.
Gísli Þorgeir í liði Magdeburg endaði leikinn með 3 mörk, Ómar Ingi skoraði sjö.
Heimaliðið varð óvænt ofar en Barcelona
Gestgjafaliðið frá Egyptalandi, Al-Ahly, vann mjög óvæntan 32-29 sigur gegn Barcelona í leik um þriðja sætið.
Barcelona er sigursælasta lið í sögu keppninnar, vann Meistaradeildina á síðasta tímabili, þykir eitt besta lið heims og hafði komist átta sinnum á verðlaunapall á mótinu, eða í hvert einasta skipti sem liðið hafði tekið þátt.
Al-Ahly er ekki eins hátt skrifað og hafði þangað til aðeins unnið einn leik gegn liði frá Evrópu.
Liðin mættust í riðlakeppninni fyrr á mótinu og þar vann Barcelona örugglega, 31-23.
Leikur dagsins var hins vegar allt öðruvísi. Frábær byrjun heimamanna lagði grunninn að góðum sigri, Barcelona barðist til baka og minnkaði muninn töluvert í seinni hálfleik en tókst ekki að minnka muninn nóg og Al-Ahly fór með þriggja marka sigur, 32-29.