Starship-eldflaugin hóf sig á loft frá sunnanverðu Texas í Bandaríkjunum í morgun. Þetta var fjórða tilraunaflug SpaceX með þessa stærstu eldflaug heims en fyrstu tvær tilraunirnar enduðu með sprengingu sem grandaði eldflauginni. Þriðja flugið í júní gekk betur.
Eitt af markmiðum tilraunaflugsins í dag var að reyna að grípa fyrsta þrep eldflaugarinnar með vélarmi á skotpallinum í Boca Chica í Texas. SpaceX hefur á undanförnum árum þróað tækni til þess að fljúga eldflaugarþrepum aftur til jarðar í heilu lagi sem hefðu annars verið einnota. Þeim þrepum hefur verið lent á prömmum út á hafi eða á pöllum langt frá skotstaðnum fram að þessu.
Eftir um sjö mínútna ferð upp og niður gufuhvolfið greip vélarmurinn eldflaugarþrepið við mikinn fögnuð starfsmanna fyrirtækisins.
Mechazilla has caught the Super Heavy booster! pic.twitter.com/6R5YatSVJX
— SpaceX (@SpaceX) October 13, 2024
„Góðir hálsar, þessi dagur fer í sögubækur verkfræðinnar,“ sagði Kate Tice, einn starfsmanna SpaceX sem lýsti útsendingu frá tilrauninni.
Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur pantað tvær Starship-eldflaugar frá SpaceX til þess að koma mönnum til tunglsins síðar á þessum áratug.