Upplýsingar sem Evrópulögreglan komst yfir úr dulkóðuðu samskiptaforriti sem skipulögð glæpasamtök hafa nýtt sér komu lögreglu á slóð leigumorðingjans. Hann var handtekinn í Belgrad í samstarfi við Evrópulögregluna í gær, að því er segir í tilkynningu frá henni.
Samskiptin leiddu í ljós hvernig höfuðpaur skipulagðra glæpasamtaka réð morðingjanna til verksins og skipulagði morðið. Þannig lagði hann á ráðin um hvernig morðinginn kæmist undan og réð tvo aðra menn til þess að fylgjast með fórnarlambinu auk þess sem hann útvegaði skotvopnið sem var flutt sérstaklega til landsins fyrir morðið.
Leigumorðinginn dulbjó sig sem gamlan mann með sílíkongrímu og haltraði. Hann skaut fórnarlambið svo í höfuðið þegar það gekk fram hjá honum. Morðið er sagt hafa verið hefndaraðgerð glæpasamtakanna.

Auk morðingjans voru höfuðpaur glæpasamtakanna sem skipulagði morðið og hinir vitorðsmennirnir tveir handteknir í aðgerðinni í gær.
Ekki er nefnt sérstaklega í tilkynningu Europol úr hvaða dulkóðaða samskiptaforriti gögnin sem leiddi hana á spor morðingjans komu. Hundruð glæpamanna hafa hins vegar verið teknir höndum eftir að evrópska löggæslustofnanir náðu að brjótast inn í og hlera samskipti í forritinu EncroChat.
Samskipti úr EncroChat voru meðal annars lögð fram í saltdreifaramálinu svokallaða þegar það kom fyrir dóm árið 2022.