Þær Alexandra Jóhannsdóttir, leikmaður Fiorentina, og Bryndís Arna Níelsdóttir, leikmaður Vals, þurftu báðar að draga sig út úr landsliðshópnum vegna meiðsla.
Þær Ásdís Karen Halldórsdóttir, leikmaður Lilleström í Noregi, og Heiða Ragney Viðarsdóttir, sem varð Íslandsmeistari með Breiðabliki í sumar, hafa verið kallaðar inn í þeirra stað.
Ásdís Karen er framliggjandi miðjumaður eða kantmaður og hefur reglulega verið í landsliðshópnum en ekki enn þreytt frumraun sína.
Heiða Ragney leikur sem djúpur miðjumaður og er í fyrsta sinn í hópnum. Hún getur einnig leikið sinn fyrsta landsleik og kórónað frábært ár. Hún var í úrvalsliði Bestu deildar kvenna í sumar og átti stóran þátt í því að Blikakonur fögnuðu sigri í deildinni.