Í tilkynningu frá lögreglunni segir að aðgerðirnar séu sérstaklega mikilvægar í ljósi þess að Instagram er meðal vinsælustu samfélagsmiðla barna og ungmenna á Íslandi. Um 82 prósent barna í 4. til 7. bekk og 98 prósent barna í 8.til 10. bekk nota Instagram.
Fleiri aðgerðir sem voru kynntar eru að auka á fræðslu og forvarnir í samstarfi við áhrifavalda á miðlinum sem og að auka aðgengi að ráðgjöf fyrir notendum sem verða fyrir kynlífskúgun og foreldra unglinga.
Þá verða einnig gerðar breytingar á tengi- og deilimöguleikum á notendareikningum til þess að trufla notkunarmynstur skipulagðra glæpasamtaka á borð við yahoo boys.
Fjallað var um kynlífskúgun á Vísi í vor. Þar kom fram að kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu merkti fjölgun í svokölluðum sæmdarkúgunarmálum [e. sextortions] meðal ungra manna og drengja á Íslandi. Lögreglan var þá með nokkur slík mál til rannsóknar.
Í tilkynningu lögreglu um málið er einnig að finna ábendingar til foreldra til að tryggja öryggi barna sinna á samfélagsmiðlum.
Ráðin eru þessu:
- Virkja öryggisstillingar: Gakktu úr skugga um að reikningar barna séu rétt stilltir á einkaham og að nýjustu breytingar frá Meta séu virkar.
- Rétt skráning: Tryggðu að börn séu rétt skráð með rétta fæðingardagsetningu svo breytingarnar nái til þeirra.
- Samræður um netöryggi: Ræddu við börnin um ábyrgð á netinu og hættuna á kynlífskúgun. Ef börnin lenda í slíkum aðstæðum, vísaðu þeim á ráðleggingar frá 112.
- Skjátími: Nýjustu breytingar takmarka tilkynningar á Instagram á nóttunni. Hvetjið börnin til að takmarka skjátíma, sérstaklega á kvöldin.