Melsungen er á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar og síns riðils í Evrópudeildinni. Elvar er að vonum sáttur með gengið í upphafi tímabils.
„Já, við erum gríðarlega ánægðir hvernig við höfum byrjað þetta tímabil, bæði í Þýskalandi og í Evrópudeildinni. Við erum hrikalega ánægðir og vonumst til að halda áfram að spila eins og við höfum verið að spila í síðustu leikjum,“ sagði Elvar á heldur óhefðbundnum blaðamannafundi Vals fyrir leikinn gegn Melsungen.
Selfyssingurinn kveðst spenntur fyrir leik kvöldsins og vonast til að sveitungar sínir láti sjá sig í N1-höllinni.
„Það er mjög skemmtilegt að fá að koma til Íslands og mæta íslensku liði. Þetta gefur manni auka dag á Íslandi. Þetta verður örugglega ógeðslega skemmtilegt. Ég býst við að margir frá Selfossi og úr fjölskyldunni mæti á leikinn og það verður örugglega gaman,“ sagði Elvar sem kemur svo aftur til Íslands í næstu viku vegna tveggja leikja með landsliðinu í undankeppni EM 2026.
Hann hlakkar til landsleikjanna tveggja gegn Bosníu og Georgíu.
„Mér líst mjög vel á að koma til Íslands í þetta landsliðsverkefni. Þetta eru mikilvægir leikir. Það verður gott að komast heim, hitta strákana og æfa með þeim og spila svo leikina gegn Bosníu og Georgíu,“ sagði Elvar.

„Ég er gríðarlega spenntur að koma heim og spila fyrir landsliðið. Það væri gaman að hitta á að eiga engan leik eftir þennan Valsleik en svo er ekki. Maður skýst aftur til Þýskalands, spilar einn leik og kemur svo aftur heim.“