Í gærkvöldi var greint frá því að Ómar hefði ákveðið að hætta sem þjálfari HK, þrátt fyrir að vera með samningstilboð frá félaginu. HK féll úr Bestu deildinni eftir 7-0 tap fyrir KR um helgina.
„Þetta gerði það,“ sagði Hjörtur Þór Steindórsson, formaður knattspyrnudeildar HK, aðspurður hvort ákvörðun Ómars hafi komið þeim á óvart.
„Við vorum á vegferð með Ómari, engin spurning, en auðvitað virðum við hans ákvörðun og það er bara áfram gakk.“
Leitun er að meiri félagsmanni en Ómari sem hefur alið manninn í HK undanfarin þrjátíu ár eða svo.
Takk HK fyrir síðustu um það bil 30 árin pic.twitter.com/IWirWWtFQP
— Ómar Ingi (@OmarIngiGud) October 29, 2024
„Við erum ótrúlega ánægð með hann en þetta er bara hans ákvörðun. Honum fannst þetta rétt ákvörðun á þessum tíma og við þökkum honum fyrir ómetanlegt starf síðustu þrjátíu árin. Síðan er það bara að vinna við að finna nýjan mann í brúna,“ sagði Hjörtur.
Hann segir að leitin að eftirmanni Ómars sé hafin en HK-ingar séu ekki búnir að setja sér nein tímamörk hvenær ætli að vera búnir að klára ráðningu á nýjum þjálfara.
Ýmsir þjálfarar hafa verið orðaðir við HK. Meðal annars var Arnar Grétarsson, fyrrverandi þjálfari Vals og Breiðabliks, á 433.is.
„Ég get ekki svarað neinu um þetta,“ svaraði Hjörtur aðspurður hvort Arnar væri á blaði hjá HK-ingum.
Mikil trú á leikmannahópnum
HK var spáð slæmu gengi fyrir tímabilið en var á endanum bara markatölunni frá því að halda sér í Bestu deildinni.
„Markmiðið var klárlega að vera áfram í Bestu deildinni. Við höfum gríðarlega mikla trú á þessu liði, þessum strákum og Ómari. En næsta verkefni er bara að koma okkur upp aftur,“ sagði Hjörtur.
En er einhver eftirsjá að hafa ekki styrkt leikmannahópinn meira fyrir tímabil, í ljósi þess hversu litlu munaði að HK héldi sér uppi á endanum?
„Nei, við höfðum fulla trú á hópnum og Ómari,“ sagði Hjörtur sem vildi ennfremur lítið segja um leikmannamál HK. Það kæmi allt í ljós á næstunni.