Leiðtogar flokkanna fjögurra tókust á í líflegum umræðum um stjórnmálin í dag. Einstaklingsfrelsi og íhald, útlendinga- og efnahagsmál, þungunarrof og EES-samningurinn voru meðal þess sem bar á góma í umræðum formannanna sem mættust í Kosningapallborðinu á Vísi.

Formaður Lýðræðisflokksins meðal annars Sjálfstæðisflokkinn um að standa ekki vörð um fullveldi Íslands.
„Það er alrangt sem Arnar kemur hér með inn að flokkurinn láti sig ekki varða fullveldi landsins. Þetta eru hins vegar öfgaskoðanir sem hann er að koma með að borðinu, er í raun og veru ekki lengur talsmaður þess lengur að við viljum vera í EES samstarfinu þegar vel er að gáð,“ sagði Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Við þessum ummælum brást Arnar Þór illa. „Ef að formaður Sjálfstæðisflokksins ætlar sér að hörfa ofan í þá skotgröf gagnvart mér að fara að klína því á mig að ég sé öfgamaður í einhverjum skilningi þá skora ég á formann Sjálfstæðisflokksins að rökstyðja þá fullyrðingu,“ sagði Arnar sem sagði Bjarna ekki túlka málflutning sinn rétt.
Formennirnir skutu einnig hver á annan á víxl og sökuðu hina um íhaldssemi og skort á frelsi.

„Með fullri virðingu, ég sé bara íhaldssemi hérna mér á hægri hönd og ég veit ekki, ég held að ákallið í dag sé um breytingar, að fara frá því gamla. Það er ekkert endilega ákall um meira íhald heldur en hefur verið,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. „Það er fróðlegt að hlusta á þá félagana í þessum flokkum, Litla eða Stóra Miðflokki eða hvernig þeir vilja skilgreina sig,“ sagði Þorgerður enn fremur og vísaði þar til Arnars og Sigmundar.
„Sami breiði flokkurinn“
Sigmundur beindi spjótum sínum einnig að Bjarna. „Þessi gamla skilgreining á hægri og vinstri hún kannski dugar ekki alveg til að skilgreina stjórnmálin eins og þau eru orðin núna. Sjálfstæðisflokkur Bjarna er búinn að sigla til vinstri við okkur þrátt fyrir að við séum bara á sama stað á miðjunni,“ sagði Sigmundur.

Sjálfur vill Bjarni meina að málflutningur hinna formannanna sé til marks um að Sjálfstæðisflokkurinn sé enn sú breiðfylking sem hann hafi ávallt verið. „Hérna hefurðu heyrt tvo formenn flokka segja, annar segir heyrðu þau eru ekki nógu frjálslynd og svo kemur hinn og segir þau eru ekki nógu íhaldssöm. Við erum ennþá í grundvallaratriðum sami breiði flokkurinn,“ sagði Bjarni.