„Já, við erum mættir hingað til Keflavíkur. Það er leikdagur, Keflavík gegn KR, og granni og þykki, þeir eru mættir,“ sagði Andri þegar þeir félagar gengu eftir Hafnargötunni í Keflavík.
„Þú hefur eiginlega aldrei komið til Keflavíkur þannig ég er svolítið að sýna þér staðinn,“ bætti Nablinn við en hann er kunnugri staðháttum í Keflavík en Tommi. Þeim stóra fannst þó vissara að hafa þann minni í bandi en það hélt ekki lengi.
Þeir félagar kíktu í búðarglugga og á skemmtistaðinn Brons áður en þeir fóru í Sláturhúsið þar sem þeir sáu Keflavík vinna góðan sigur, 94-88.
Nablinn og Tommi tóku meðal annars stöðuna á leikmönnum liðanna í upphitun og hittu Jón Halldór Eðvaldsson, sérfræðing Bónus Körfuboltakvölds, sem var léttur í skapi þrátt fyrir að býsnast yfir varnarleik sinna manna í Keflavík.
Félagarnir enduðu á að taka sína eigin útgáfu af „Keflavíkurnóttum“ Rúnars Júlíussonar og Jóhanns Helgasonar. Þá komst reyndar upp að Tommi hafði týnt Stöðvar 2 Sports svampinum af hljóðnemanum sínum.
Heimsókn þeirra Andra og Tomma til Keflavíkur má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.