Þriggja flokka samsteypustjórn Scholz sprakk í síðustu viku þegar hann rak Christian Lindner, fjármálaráðherra Frjálsra demókrata, vegna ágreinings um efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar.
Scholz boðaði í kjölfarið að hann ætlaði sér að leiða minnihlutastjórn þar til atkvæðagreiðsla um vantraust yrði haldin í janúar. Stjórnarandstaðan hefur krafist þess að sú atkvæðagreiðsla verði haldin strax.
Annað hljóð var komið í strokkinn í viðtali Scholz við ríkisfjölmiðilinn ARD í gær. Þar sagðist hann til í að halda atkvæðagreiðsluna fyrir jól ef allir væru sammála um það.
„Ég er ekki límdur við embætti mitt,“ sagði kanslarinn.
Verði Scholz undir í atkvæðagreiðslunni, sem er talið óumflýjanlegt, hefur forseti landsins 21 dag til þess að slíta þingi. Boða verður til kosninga innan sextíu daga eftir þingslit, að því er segir í frétt DW.

Stjórnin hefði sprungið fyrr án hans
Scholz hafnaði því í viðtalinu að hafa á einhvern hátt skipulagt stjórnarslitin. Hann hefði barist fyrir því að halda samstarfi Sósíaldemókrataflokksins síns við Græningja og frjálsa demókrata áfram. Án hans hefði stjórnin sprungið mun fyrr. Hún hefði raunar aldrei verið stofnuð án hans atbeina.
„Ég lét mig hafa það að láta á engu bera í þágu málamiðlunar og samstarfs og stundum að leika ljótan leik. En þegar þessu er lokið þá er því lokið,“ sagði Scholz.
Þegar kanslarinn rak Lindner sagðist hann hafa verið ósammála áformum fjármálaráðherrans um skattalækkanir á þá tekjuhæstu á sama tíma og hann ætlaði að skerða lífeyri eftirlaunaþega. Í viðtalinu í gær sagði Scholz að það hefði legið beint við að reka Lindner.