Skoðun

Gaman og gott að eldast – eflum lýðheilsu

Rósa Guðbjartsdóttir skrifar

Hafnarfjarðarbær var árið 2015 eitt af allra fyrstu sveitarfélögum landsins til að gerast heilsueflandi samfélag og hóf í kjölfarið ýmsar aðgerðir, meðal annars samstarf við ,,Janus heilsueflingu“ um markvissa heilsueflingu fyrir eldri borgara. Það hefur reynst gríðarlega vinsælt enda um afar faglega handleiðslu að ræða sem skipt hefur sköpum fyrir hundruð Hafnfirðinga. Með frábæru utanumhaldi hefur Janus komið fjölda fólks af stað í hreyfingu, sumum í fyrsta sinn, og að námskeiði loknu hefur fólk síðan haldið áfram á eigin vegum.

Nú hyggst Hafnarfjarðarbær fjárfesta enn frekar í forvörnum og lýðheilsu eldri borgara. Ákveðið hefur verið að auka fjölbreytni í þessum efnum með samstarfi við líkamsræktarstöðina Hress þar sem hópur fagfólks hefur hannað sérstakt æfingaprógram og handleiðslu fyrir 65 ára og eldri.

Með framboði af þessu tagi er bæjarfélagið að leggja sitt af mörkum til að efla heilsutengdar forvarnir sem eru ekki síst mikilvægar þegar aldurinn færist yfir. Það er aldrei of seint að huga að heilsunni en með markvissri þjálfun er hægt að bæta liðleika, styrk og þol á hvaða aldri sem er. Þannig aukast lífsgæðin; heilsan og hreyfifærnin batnar og þannig getur fólk tekist lengur á við athafnir daglegs með hækkandi aldri. Í nýrri fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 gerir Hafnarfjarðarbær einnig ráð fyrir því að hækka tekjuviðmið frístundastyrks til eldri borgara.

Það er gaman og gott að eldast þegar heilsan er góð og hvað er skemmtilegra en að hreyfa sig og þjálfa í góðum hópi. Að mínu mati á lýðheilsa og fyrirbyggjandi aðgerðir fyrir alla aldurshópa að fléttast mun meira inn í heilbrigðiskerfið allt en nú er.

Það er góð fjárfesting í öllu tilliti en sérstaklega fyrir fólkið sjálft og þeirra lífsgæði.

Höfundur er bæjarstjóri í Hafnarfirði.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×