Frá þessu segir á vef sveitarfélagsins en fyrr í dag var einnig greint frá því að neysluvatnið væri í ólagi á Flateyri.
Á vef Bolungarvíkurkaupstaðar segir að neysluvatnið sem hafi komið úr vatnsbólum í Hlíðardal sé mjög drullugt og mikil óhreinindi fylgi því.
„Svo mikið að því miður réð hreinsikerfið í Vatnsveitunni í Hlíðardal ekki við álagið og allar síur stífluðust. Vatnið í Bolungarvík er því ekki gott í dag, drullugt og óhæft til drykkjar. Íbúar eru því beðnir um að sjóða vatn til neyslu sem varúðaraðgerð.
Unnið er áfram að því að koma vatnsveitunni í gott horf og vonandi lagast ástandið sem fyrst. Það er ekki hægt að segja með vissu hvenær þetta mun lagast, eða það fer eftir veðri. Veðrið á að ganga niður í dag og hætta að rigna í kvöld.
Nýjar upplýsingar verða settar hér inn um leið og ástandið lagast,“ segir á vef Bolungarvíkur.
Fjöldi skriða
Á vef Veðurstofunnar segir að fjöldi skriða hafi fallið á Vestfjörðum í nótt, meðal annars á vegi í Dýrafirði við gangnamunna Dýrafjarðarganga, í Hestfirði, á Eyrarhlíð við Ísafjörð, á Dynjandisheiði og utan við Spilli við Súgandafjörð og vatnsból við Flateyri.
Sömuleiðis hafi vatn flætt víða yfir vegi á Vestfjörðum. Veðurspá gerir ráð fyrir áframhaldandi úrkomu í dag, þó í minna mæli.