Á heimasíðu samtakanna hefur sérstök upplýsingasíða verið sett upp á ensku fyrir Bandaríkjamenn, vegna fjölda fyrirspurna þeirra. Bjarndís Helga Tómasdóttir, formaður samtakanna, segir að sumt fólkið sé að skoða það af mikilli alvöru að flytja frá Bandaríkjunum.
Staðan alvarleg fyrir konur og hinsegin
„Staðan er náttúrulega bara grafalvarleg fyrir konur og hinsegin fólk í Bandaríkjunum núna, þannig við höfum bara mikla samúð með því,“ segir hún.
Hún segir að beint eftir forsetakosningarnar vestanhafs hafi samtökin byrjað að fá fyrirspurnir frá hinsegin fólki í Bandaríkjunum. Einnig hafi fólk komið inn til þeirra af götunum í leit að huggun og upplýsingum.
„Við heyrum þetta líka frá öðrum hinsegin samtökum á Norðurlöndunum. Þannig að við settum upp svona upplýsingasíðu,“ segir hún.
Ísland sé í öðru sæti á regnbogakorti Evrópu, og það sé því ekkert skrítið að hinsegin fólk vilji koma hingað.
Fólk gæti misst réttindi sín
Bjarndís segir að fólk hafi áhyggjur af því að ýmis réttindi gætu verið tekin af hinsegin fólki, sérstaklega í ljósi þess að dóminum í Roe vs Wade hafi verið snúið við.
„Vegna þess að þeim dómi var snúið við, að þá sér fólk fyrir sér að nú verði auðveldara að snúa við rétti samkynja para til hjónabands og til barneigna. Þannig fólk í samkynja hjónaböndum er mikið að skoða það hvernig þau geta tryggt lagalega stöðu sína og réttindi gagnvart börnum sínum. Þetta er það sem fólk óttast,“ segir hún.
Einnig hafi fólk áhyggjur af því að réttur fólks til að ákveða eigin kyn verði afnuminn, og réttindi trans barna.
„Í raun öll grundvallaratriði hinsegin fólks er eitthvað sem fólk óttast núna í Bandaríkjunum,“ segir Bjarndís.