Í einu tilfelli á höfuðborgarsvæðinu í nótt var tilkynnt um mann í annarlegu ástandi í umferðinni. Sá streittist mikið á móti þegar afskipti voru hafin af honum og braut hann rúðu í lögreglubíl. Við það var hann „tekinn í tök“, eins og það er orðað í dagbók lögreglunnar og fluttur á lögreglustöð.
Þá var einn ökumaður stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna. Þegar lögregluþjónn nálgaðist bílinn voru ökumaður hans og farþegi að reyna að skipta um sæti en tókst það ekki. Báðir voru handteknir og einnig fundust fíkniefni í bílnum.
Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum og þrír voru án réttinda. Einnig kom í ljós eftir umferðarslys, þar sem enginn slasaðist, að annar bíllinn var óskráður.
Að endingu var lögreglan kölluð til vegna unglingateitis sem fór úr böndunum og var það leyst upp.