Skoðun

Ís­land og orkuskiptin: Styðjum þróun á jarð­hita og al­þjóð­legt sam­starf

Ester Halldórsdóttir skrifar

Ein af sérstöðum Íslands er gnægð náttúruauðlinda sem hægt er að nýta til framleiðslu endurnýjanlegar orku- eitthvað sem margar þjóðir öfunda okkur af. Við höfum jarðhita, vatnsorku og vindorku sem við gætum nýtt í mun meiri mæli en gert er í dag. Það er ákaflega mikilvægt er að tryggja orkuöryggi bæði almennings og atvinnugreina með því að auka framboð af endurnýjanlegri orku.

Ísland er leiðandi á heimsvísu í nýtingu jarðhita í hitaveitur og í rafmagnsframleiðslu, þróun sem hófst á fyrri hluta 20. aldarinar fyrir tilstilli stuðnings yfirvalda til þróunar og rannsókna á jarðhita. Fyrir vikið skapaði Ísland sér sérstöðu í alþjóðasamfélaginu með með brautryðjandastarfi í nýtingu jarðhita, meðan flestar þjóðir notuðu (og margar nota enn) mengandi eða óendurnýjanlega orkugjafa.

Á undanförnum árum hefur staðan hinsvegar breyst, þar sem mikil framþróun hefur átt sér stað í nýtingu jarðvarma erlendis. Á meginlandi Evrópu hefur áhugi aukist á að nýta lághitasvæði til húshitunar, í matvælaframleiðslu, og þróun á varmageymslum neðanjarðar. Á Vestfjörðum, Norðvesturlandi og Austurlandi er að finna mjög sambærileg lághitasvæði og fyrirfinnast á meginlandi Evrópu, þar sem hægt væri að nýta jarðvarma fyrir hitaveitukerfi, og þar með auka orkuöryggi og atvinnumöguleika íbúðabyggða þar.

Ísland þarf því að leggja aukna áherslu á rannsóknir og þróun á jarðhita á meira krefjandi svæðum Íslands til að halda leiðandi stöðu í nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Íslendingar hafa skapað mikil verðmæti með nýsköpun í jarðhita geiranum og í sjávarútvegi. Það er mikilvægt að við höldum áfram að styrkja nýsköpun og þróun í þessum geirum, bæði til að nýta á Íslandi og til að flytja út þekkingu og þar með auka útflutningstekjur.

Alþjóðlegt samstarf í rannsóknum og þróun endurnýjanlegrar orku er einnig afar mikilvægt. Það gerir kleift að deila þekkingu og reynslu, taka þátt í alþjóðlegum verkefnum, hafa aðgang að alþjóðlegum styrkjum, og hafa áhrif á evrópska stefnu í orkumálum. Ísland er aðili að Strategic Energy Technology (SET) Plan Evrópusambandsins, Geothermal Implementation Working Group, og GEOTHERMICA Initiative, og hefur í gegnum þessa vettvanga haft aðgang að fjölda verkefna og styrkja.

Með því að leggja aukna áherslu á þróun, nýsköpun og alþjóðlegt samstarf getum við ekki aðeins styrkt innviði okkar heldur einnig stuðlað að sjálfbærri þróun á heimsvísu. Ísland hefur einstakt tækifæri til að vera leiðandi í orkumálum og við eigum að nýta það tækifæri til að skapa sjálfbæra framtíð, bæði fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.

Höfundur er í 6. sæti á lista Viðreisnar í suðvesturkjördæmi.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×