Kristinn var í viðtali við RÚV strax eftir leik og spurður að því hvort þetta hafi verið besta kvöld sem hann hefur upplifað sem körfuboltamaður. Ítalía er 14. besta körfuboltalið í heiminum og ekki hlaupið að því að vinna þá á útivelli.
„Þetta er allavega mjög mjög stórt fyrir mig. Ótrúlegt kvöld. Við vorum geggjaðir, vörnin okkar frábær og við hittum vel. Við náðum að setja saman margar varnir og taka af þeim sóknarfráköstin sem fór illa með okkur í fyrri leiknum. Náðum svo að ýta svolítið í bakið á þeim og náðum að sýna að við eigum heima á þessu stigi.“
Kristinn var beðinn um að fara í gegnum leikinn sinn en hann hitti mjög vel úr þriggja stiga skotum en hann hitti úr fimm af sex tilraunum. Datt honum í hug að þetta myndi enda svona?
„Auðvitað. Við töluðum um það eftir síðasta leik þá trúðum við alltaf á okkar leik, okkar varnarleik og alveg sama hvaða leikmenn þeir myndu mæta með. Við ætluðum aldrei að leggjast í gólfið og leyfa þeim að labba yfir okkur. Mér fannst við berjast vel og það gaf okkur sigurinn í kvöld.“