Skoðun

Svíns­leg mis­munun gagn­vart eldra fólki

Jóhann Páll Jóhannsson skrifar

Tugþúsundir eldri borgara hafa fengið bakreikning frá Tryggingastofnun á undanförnum árum vegna vanáætlaðra fjármagnstekna.

Oftast eru þetta í raun neikvæðir vextir af sparireikningunum. Þótt þeir skili ávöxtun í krónum talið, þá heldur sú ávöxtun ekki í við verðbólguna sem hefur í raun rýrt sparifé fólksins – eldri borgara sem hafa verið að nurla saman á sparifjárreikninga til að eiga borð fyrir báru ef þeir þurfa að mæta óvæntum útgjöldum.

Almennt launafólk þarf ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af fyrstu 300 þúsund krónunum sem það fær í vexti af sparnaði í banka. Með sérstöku frítekjumarki vaxtatekna er almennum sparifjáreigendum þannig hlíft við skattlagningu lágra og neikvæðra vaxta.

Öðru máli gegnir um eldri borgara. Þar koma vaxtatekjur strax frá fyrstu krónu til skerðingar á greiðslum Tryggingastofnunar, jafnvel þegar bankareikningur ber enga raunvexti heldur aðeins verðbætur.

Slíkar skerðingar vegna sparnaðar á lágum eða neikvæðum raunvöxtum voru meginorsök þess að 36 þúsund eldri borgarar fengu bakreikning frá TR síðasta sumar og voru krafðir um að meðaltali 271 þúsund krónur.

Í komandi alþingiskosningum óskum við í Samfylkingunni eftir umboði þjóðarinnar til að leiðrétta þessa mismunun gagnvart eldra fólki. Það er óhæfa að ellilífeyrir sé stórskertur vegna sparnaðar jafnvel þegar ekki er um að ræða neina raunverulega eignaaukningu eða rauntekjur af inneign fólks.

Samfylkingin mun koma á sérstöku frítekjumarki vaxtatekna til jafns við frítekjumarkið í skattkerfinu. Þannig tryggjum við að tugþúsundum færri eldri borgarar fái bakreikning frá TR.

Þetta er réttlætismál.

Höfundur er oddviti Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×