Ómar meiddist strax í annarri sókn liðsins er Magdeburg vann níu marka sigur gegn Bietigheim í dag. Ómar sótti þá að vörn gestanna og lenti greinilega illa og snéri upp á hægri ökklann á sér. Hann var borinn af velli og kom ekki meira við sögu í leiknum.
Í stuttu samtali við Vísi í kvöld sagðist Ómar ekki geta sagt til um hvort meiðslin væru alvarleg, eða hversu lengi hann yrði frá keppni. Hann sé á leið í frekari rannsóknir.
Nú þegar rétt rúmar sex vikur eru í að heimsmeistaramóti í handbolta hefjist er ljóst að Ómar gæti lent í kapphlaupi við tíman ef niðurstöður þeirra rannsókna eru ekki jákvæðar.
Hér fyrir neðan má sjá myndband af atvikinu og af því þegar Ómar er borinn af velli.