Stuðningsmenn Roma bauluðu á Zaniolo þegar hann kom inn á sem varamaður í kvöld, enn fúlir vegna þess hvernig viðskilnaður hans var við félagið.
Þessi 25 ára ítalski landsliðsmaður fékk það í gegn að komast frá Roma í byrjun síðasta árs, og endaði hjá Galatasaray í Tyrklandi. Meiðsli höfðu þá sett stórt strik í reikninginn á fimm árum hans hjá Roma.
Zaniolo, sem var að láni hjá Aston Villa á síðustu leiktíð, skoraði sitt fyrsta mark fyrir Atalanta í kvöld þegar hann innsiglaði 2-0 sigurinn nokkrum mínútum fyrir leikslok. Hollendingurinn Marten de Roon hafði komið Atalanta yfir á 69. mínútu.
Þegar Zaniolo skoraði þá fagnaði hann gríðarlega og fór meðal annars úr treyjunni, þó að það kostaði hann gult spjald. Eftir leik var hann svo dreginn fljótt í burtu af liðsfélögum til að koma í veg fyrir vandræði.
Þetta var áttundi sigurleik Atalanta í röð í deildinni, en fjórða tap Rómverja í röð. Roma er því í 15. sæti með aðeins 13 stig en Atalanta er núna með 31 stig í 2. sætinu, stigi á eftir Napoli eftir fjórtán umferðir.