Erlent

Herlögin loks felld úr gildi

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn fyrir utan þinghúsið í Seoul í kvöld.
Hermenn fyrir utan þinghúsið í Seoul í kvöld. AP/Kim Ju-sung

Ríkisstjórn Suður-Kóreu hefur fellt herlög sem sett voru á þar fyrr í kvöld úr gildi. Forsvarsmenn hers ríkisins hafa sömuleiðis slitið herlagastjórninni þar á bæ og hafa hermenn verið fluttir aftur til herstöðva sinna.

Hermennirnir eru sagðir hafa fagnað þegar fregnir af þessum nýjustu vendingum bárust.

Yoon Suk Yeol, forseti Suður-Kóreu lýsti því yfir undir kvöld að hann hefði sett á neyðarlög. Hann sagðist hafa gert það til að verja landið gegn öfgaöflum og meintum kommúnistum í Suður-Kóreu en hann hefur átt í miklu basli með stjórnarandstöðuna í Suður-Kóreu frá því hann tók við völdum.

Innan við tveimur tímum eftir að hann lýsti yfir herlögum og hermenn girtu þinghúsið af, ruddust 190 þingmenn inn í þingsal, þar sem þeir samþykktu einróma ályktun um að binda enda á vopnahléið og samkvæmt stjórnarskrá landsins er forseta skylt að verða við slíkri kröfu frá meirihluta þingmanna.

Yoon varð þó ekki við því strax.

Sjá einnig: Óvissa þrátt fyrir að þingið hafi fellt neyðarlögin úr gildi

Atvik kvöldsins þykja líkjast stöðunni í Suður-Kóreu á níunda áratug síðustu aldar þegar ríkinu var síðast stjórnað af einræðisherra.

Yfirlýsing Yoon hefur verið harðlega gagnrýnd af flestum leiðtogum Suður-Kóreu og þar á meðal af leiðtoga stjórnmálaflokks Yoon en forsetinn sagði leiðtogum flokksins ekki frá ætlunum sínum.

Þegar forsetinn lýsti því yfir að herlögin yrðu felld niður gagnrýndi hann þingmenn og sérstaklega stjórnarandstöðuna áfram. Sérstaklega fyrir ítrekaðar vantrauststillögur gegn embættismönnum, saksóknurum og öðrum þingmönnum og sagði hann samkvæmt AP fréttaveitunni að þessar aðgerðir hefðu lamað ríkisrekstur Suður-Kóreu.

Nokkuð ljóst er að vendingar kvöldsins og þessi mögulega valdaránstilraun Yoon muni draga dilk á eftir sér. BBC hefur eftir þingmönnum sem hafa setið í þingsal í Seoul í kvöld að þar séu menn sammála um að forsetinn verði að stíga til hliðar, annars verði honum vikið úr embætti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×