Penni varð Íslandsmeistari með Breiðabliki 1995 og lék svo með Grindavík í þrjú ár og varð meistari með liðinu 1997.
Hún varð þrisvar sinnum stigadrottning efstu deildar og varð sú fyrsta í sögu hennar til að ná fjórfaldri tvennu í leik. Í leik Grindavíkur og ÍR 15. október 1996 skoraði Penni 52 stig, tók sextán fráköst, gaf ellefu stoðsendingar og stal boltanum tíu sinnum.
„Ég var dálítið barnaleg þegar kom að því að sumir vildu ekki fá mig. Af hverju ekki? Hvað hef ég gert? Ég er bara ung og heimsk Bandaríkjakona. Ég vil bara spila körfubolta. En þau voru nokkur sem töldu að ég ætti bara að fara aftur til Bandaríkjanna,“ sagði Penni þegar hún rifjaði upp tíma sinn á Íslandi í Kananum.
Ekki leið á löngu þar til Pennis var byrjuð að tala íslensku.
„Fyrsta orðið sem ég lærði á körfuboltavellinum var laglegt. Það þýddi peningar, vel gert, gott skot eða eitthvað. Síðan lærði ég blótsyrðin fljótt. Að þau voru ljót,“ sagði Penni en í innslaginu sem má sjá hér fyrir ofan má heyra hana tala íslensku.
Fjórði og síðasti þáttur Kanans verður sýndur klukkan 19:00 á Stöð 2 á sunnudaginn og klukkan 21:15 á Stöð 2 Sport.