Farþegaflugvél á vegum Azerbaijan Airlines brotlenti í útjaðri borgarinnar Aktau í Kasakstan í gærmorgun með 62 farþega um borð, 38 þeirra létu lífið. Flugvélin var á leið til Grosní í Téténíu en það hefur vakið athygli að kasakska strönd Kaspíahafs sé talsvert utan leiðar.
Fullyrðingar um aðkomu Rússa órökstuddar
Andrí Kovalenkó, leiðtogi nefndar innan úkraínska hersins sem hefur markmið að stiga stemmu við falsupplýsingum, fullyrti á samfélagsmiðlum í gær að rússneskar loftvarnir hefðu skotið flugvélina niður. Hann vísaði til mynda sem hafa verið í dreifingu af götóttum skrokki vélarinnar og björgunarvestum máli sínu til stuðnings.
Dmítrí Peskov, talsmaður forseta Rússlandsforseta, segir rannsókn þegar hafna á tildrögum slyssins og ekki væri rétt að fara í neinar bollaleggingar fyrr en niðurstaða þeirrar rannsóknar lægi fyrir. Þá tjáði forseti öldungadeildar kasakska þingsins sig einnig um málið.
„Ekkert þessara landa, ekki Aserbaídsjan, Rússland né Kasakstan, vilja fela neitt. Allar upplýsingar verða gerðar aðgengilegar almenningi,“ hefur Guardian eftir Asjimbajev Maulen. forseti þingsins. Jafnframt sagði hann fullyrðingar um aðkomu rússneskra loftvarna órökstuddar og ófyrirsvaranlegar.
Rússneskar loftvarnir hafi haldið að flugvélin væri úkraínskur dróni
Heimildarmenn fréttaveitunnar Reuters innan aserska flugmálageirans segja að fyrstu fregnir af rannsókninni bendi til að flugvélin hafi orðið fyrir skothríð rússnesks loftvarnarkerfis. Samskiptakerfi flugvélarinnar hafi verið rofið þegar flugvélin nálgaðist áfangastaðinn Grosní. Þessar heimildir Reuters eru þó einróma um að árásin hafi ekki verið af vilja gerð.
Þess má geta að Grosní hefur ítrekað verið skotmark flygildaárása Úkraínumanna síðan Rússland réðist inn í Úkraínu í febrúar ársins 2022. Fyrr á jóladag tilkynnti rússneska varnarmálaráðuneytið að loftvarnir þeirra hefðu skotið niður 59 flygildi þvert yfir Rússland. Embættismaður innan téténsku landsstjórnarinnar birti færslu á samfélagsmiðla í gærmorgun þar sem hann sagði öll flygildi þar hafa verið skotin niður.
Rússnesk flugmálayfirvöld segja að líklega hafi fugl flogið á flugvélina og henni því gert að breyta um stefnu. Asersk flugmálayfirvöld rannsaka nú málið.