Innlent

„Þetta er dæmi­gert bak­tjalda­makk“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2022. Síðan þá hefur enginn fundur verið haldinn.
Frá landsfundi Sjálfstæðisflokksins í nóvember 2022. Síðan þá hefur enginn fundur verið haldinn. Vísir/Vilhelm

Þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir nýbreytni ef vont veður yrði notað sem ástæða til að fresta landsfundi. Leiðtogi eldri sjálfstæðismanna segir tíma formannsins liðinn og að umræða um frestun fundarins beri einkenni baktjaldamakks. 

Vísir greindi frá því í gær að formenn málefnanefnda Sjálfstæðisflokksins hefðu til skoðunar að fresta landsfundi, sem fyrirhugaður er um mánaðamótin febrúar/mars. Haft var eftir Jens Garðari Helgasyni, formanni atvinnuveganefndar flokksins, að brugðið gæti til beggja vona með veðurfar á þessum árstíma. Ef fundinum yrði frestað yrði það líklega fram á haust.

Síðasti landsfundur flokksins fór fram í nóvember 2022, en landsfundur á að jafnaði að fara fram annað hvert ár, samkvæmt lögum flokksins. 

Leiðtoga öldunganna nóg boðið

Formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna segir fréttirnar koma illa við sig, sér í lagi vegna þess að flokkurinn fékk sína verstu niðurstöðu í sögunni í alþingiskosningunum í nóvember.

„Þetta er náttúrulega ótækt vegna þess að það þarf að fara fram uppgjör í flokknum,“ segir Bessí Jóhannsdóttir, formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna. Formenn málefnanefnda hafi ekkert um það að segja hvenær landsfundur fari fram, heldur sé það miðstjórnar að ákveða slíkt. 

Möguleikinn á vondu veðri í lok febrúar sé ótrúverðug ástæða til frestunar að hennar mati. Allra veðra von hafi verið þegar Bjarni Benediktsson formaður flokksins boðaði til Alþingiskosninga í lok nóvember. Síst sé von á verra veðri í lok febrúar heldur en þá. 

Bessí telur tíma Bjarna formanns liðinn.

„Veðrið skiptir engu máli. Við erum vön að leysa þau mál hér á Íslandi. Þetta er bara venjulegur fyrirsláttur.“

Hvað heldurðu þá að búi þarna að baki þessum mögulegu áformum?

„Ég held að það búi að baki að verið sé að huga að því bak við tjöldin hverjir eigi að taka við og hvernig flokkurinn eigi að líta út á komandi misserum. Þetta er dæmigert baktjaldamakk.“

Bessí skal þó ekki segja um hverjir standi að baki hinu meinta baktjaldamakki.

„Hins vegar er ég þeirrar skoðunar að tími Bjarna sé liðinn og þegar hann kveður loks upp um það að hann ætli að hætta, þá munu ýmsir gefa kost á sér. Síðan er það landsfundarfulltrúa að velja hver verður næsti formaður. Það er ekki klíku innan flokksins að ákveða það,“ segir Bessí. 

„Ekki heyrt þessu slengt fram fyrr“

Diljá Mist Einarsdóttir þingmaður flokksins tekur í sama streng og segir fréttirnar koma sér á óvart.

„Ég sé enga ástæðu til þess að fresta landsfundi. Það hefur sjaldan verið eins mikilvægt fyrir Sjálfstæðismenn að koma saman, ekki síst í kjölfar úrslita nýafstaðinna kosninga sem voru auðvitað vonbrigði fyrir okkur,“segir Diljá. 

Diljá Mist telur enga ástæðu til að fresta landsfundi.Vísir/Vilhelm

Hún telji það nýbreytni að möguleiki á vondu veðri sé nefndur sem ástæða.

„Ég hef ekki heyrt þessu slengt fram fyrr.“

Hún þekki ekki til málsins af öðru en því sem komið hafi fram í fjölmiðlum.

„Þannig að ég átta mig ekki á því hvað býr að baki. Ég legg bara þunga áherslu á að dagsetning landsfundar standi, því það er gríðarlega mikilvægt að við sjálfstæðismenn komum saman.“

Hefur íhugað framboð til forystu

Diljá segir fulltrúa sjálfstæðismanna á landsfundi hafa í höndum sér hvernig skipað verði í forystu flokksins. 

„Það eru ekki formenn málefnanefnda eða forystumenn flokksins sem stýra því.“

Sjálf hafi hún ekki íhugað formannsframboð á komandi landsfundi.

„En það eru auðvitað fleiri embætti sem verður kosið um á þessum landsfundi, og ég hef alveg íhugað það.“

Þannig að þú hefur íhugað að fara í varaformanninn eða ritarann?

„Já, meðal annars,“ segir Diljá. 

Óheppilegt að hafa þrjú ár milli funda

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður flokksins, er á meðal þeirra sem greint hefur frá því að skorað hafi verið á hana að bjóða fram krafta sína í embætti formanns, fari svo að Bjarni Benediktsson láti gott heita. Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu segist hún ekki telja neina ástæðu til að fresta fundinum, en það sé miðstjórnar að ákveða það. 

Áslaug Arna er á meðal þeirra sem skorað hefur verið á að bjóða sig fram til formanns, fari svo að Bjarni Benediktsson sækist ekki eftir embættinu áfram.Vísir/Arnar

„Honum hefur nú þegar verið frestað og mikilvægt að flokksmenn geti komið saman sem fyrst eftir þessar kosningar til að hefja þá vinnu sem flokkurinn þarf að fara í til að byggja upp trúverðugleika sinn, ná til fleiri landsmanna, undirbúa sveitarstjórnarkosningar og ná meiri árangri í næstu kosningum. Sú vinna má ekki bíða of lengi,“ segir í svari Áslaugar.

Hún hafi ekki sérstaka skoðun á nákvæmri dagsetningu, en þætti óheppilegt ef þrjú ár liðu á milli funda. Sú yrði raunin ef fundinum yrði frestað fram á haust.

Fólksins í flokknum að ákveða

Í samtali við fréttastofu segir Vilhjálmur Árnason, ritari Sjálfstæðisflokksins, að hann hefði heyrt því velt upp hvort frestun gæti borgað sig. 

„Sjálfstæðisflokkurinn er með kjörnar stofnanir til að taka ákvörðun um þetta. Eins og staðan er í dag þá á landsfundur að fara fram 28. febrúar og ekki verið tekin ákvörðun um neitt annað. Fólkið í flokknum verður bara að taka ákvörðun um það. Nú þurfum við að byggja upp og sækja fram, og við treystum fólkinu í flokknum best til að taka ákvarðanir til þess,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Árnason er ritari Sjálfstæðisflokksins.Vísir/Vilhelm

Verði fundi frestað segir hann mikilvægt að góð ástæða að liggja fyrir.

„Er það til þess að leyfa fólki að koma betur undirbúið til fundarins, eða gagnast það okkur betur í að byggja flokkinn upp, að fresta fundinum? Það er alltaf mikilvægt að halda landsfund og kalla fólk sem oftast til ráðgjafar fyrir forystu flokksins.“


Tengdar fréttir

Sjálfstæðismönnum brugðið yfir mögulegri frestun landsfundar

Svo virðist sem ólga ríki meðal Sjálfstæðismanna vegna mögulegrar frestunar landsfundar sem til stóð að yrði haldinn í febrúar. Formanni Varðar og Samtaka eldri Sjálfstæðismanna er brugðið yfir fréttunum og segja þau enga ástæðu til að fresta þegar frestuðum landsfundi.

Veðurstofa Sjálfstæðisflokksins frestar fundi

Í gær bárust vægast sagt furðulegar fregnir um að óformlegur hittingur formanna málefndanefnda Sjálfstæðisflokksins hefði að vel ígrunduðu máli komist að þeirri niðurstöðu að nauðsynlegt sé að fresta fyrirhuguðum landsfundi flokksins fram á haust. Þrátt fyrir að hópurinn búa að því er virðist yfir einhverjum leyni/töfragögnum um veðurfar þá sér hann sér ekki fært að deila með okkur hinum hver sé hin fullkomna dagsetning veðurfarslega séð nema bara “líklega bara í haust.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×