Fótbolti

Messi skrópaði í Hvíta húsið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi hafði ekki tíma fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta.
Lionel Messi hafði ekki tíma fyrir Joe Biden Bandaríkjaforseta. Getty/Federico Peretti

Argentínski knattspyrnumaðurinn Lionel Messi var gagnrýndur fyrir að láta ekki sjá sig þegar Joe Biden, fráfarandi Bandaríkjaforseti, ætlaði að sæma hann bandarísku forsetaorðunni.

Orðan sem ber nafnið „Presidential Medal of Freedom“ er mesta viðurkenningin sem almennur borgari getur öðlast í Bandaríkjunum.

Messi fékk hana í ár ásamt körfuboltagoðsögninni Earvin „Magic“ Johnson og tónlistarmanninum Bono úr U2.

Annika Sörenstam, Michael Jordan og Tiger Woods hafa öll fengið þessa orðu í gegnum tíðina.

Messi hefur ekki verið lengi í Bandaríkjunum en hann gekk til liðs við Inter Miami sumarið 2023. Hann fær orðuna engu að síður fyrir það sem hann hefur gert fyrir bandaríska fótboltann.

Athöfnin fór fram í Hvíta húsinu en Messi skrópaði á hana. Bono og Magic voru aftur á móti báðir mættir. Argentínumaðurinn lét þó vita af því áður að hann kæmist ekki til Washington DC. Aftonbladet segir frá.

Það var vissulega umdeilanlegt að sæma Messi þessari orðu eftir svo stuttan tíma í landinu en skróp hans ýtti síðan undir frekari gagnrýni.

Alexi Lalas, fyrrum landsliðsmaður Bandaríkjanna, var mjög ósáttur við Messi.

„Já það var fáránlegt að láta Messi fá þessa orðu en ef þú ætlar að taka við henni þá verður þú að finna leið til að koma þér til Washington DC,“ skrifaði Lalas á samfélagasmiðilinn X.

Messi hefur skorað 34 mörk í 39 leikjum fyrir Inter Miami. Liðið varð deildarmeistari og setti stigamet en datt síðan út í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Hann var kosinn mikilvægasti leikmaður MLS deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×