Fótbolti

Arnar fundar með KSÍ

Sindri Sverrisson skrifar
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, gæti verið að taka við íslenska landsliðinu.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavíkur, gæti verið að taka við íslenska landsliðinu. Vísir/Anton Brink

Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, virðist færast sífellt nær því að verða kynntur sem nýr landsliðsþjálfari Íslands í fótbolta.

Arnar var boðaður á fund með stjórn Knattspyrnusambands Íslands á Hilton Nordica í morgun og var áætlað að sá fundur stæði yfir til hádegis.

KSÍ bókaði fund á Hilton frá 9:30-12 í dag, til að ræða við Arnar Gunnlaugsson.

Fram kom í síðasta mánuði að Víkingar hefðu veitt KSÍ leyfi til að ræða við Arnar sem er samningsbundinn félaginu.

KSÍ hefur verið með þrjá þjálfara til skoðunar en auk Arnars hefur sambandið rætt við Frey Alexandersson sem nú þykir líklegur til að taka við norska félaginu Brann. Þá hefur Per-Mathias Högmo verið sagður hafa rætt við KSÍ en hann er að taka við Molde í Noregi.

Arnar hefur verið þjálfari Víkings frá haustinu 2018 með afar farsælum árangri. Undir hans stjórn varð liðið Íslandsmeistari 2021 og 2023, og bikarmeistari fjögur skipti í röð eða árin 2019, 2021, 2022 og 2023. Liðið varð í 2. sæti Bestu deildarinnar í haust og í 2. sæti Mjólkurbikarsins.

Þá urðu Víkingar fyrstir íslenskra liða til að vinna leik í aðalkeppni Sambandsdeildar Evrópu, og gott betur en það því þeir eru komnir áfram í umspil um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar. Umspilsleikirnir, gegn Panathinaikos frá Grikklandi, fara fram 12. og 19. febrúar. Ljóst er að heimaleikur Víkings verður spilaður erlendis, sennilega í Danmörku.

Næstu landsleikir Íslands, og þar með fyrstu mótsleikir arftaka Åge Hareide, eru umspilsleikirnir við Kósovó um sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar. Fyrri leikurinn er í Kósovó 19. mars en sá seinni, heimaleikur Íslands, í Murcia á Spáni 22. mars vegna vallarmála á Íslandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×