Handbolti

Tóma­rúm eftir brott­hvarf Landins og Han­sens úr lands­liðinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Niklas Landin og Mikkel Hansen eru hættir í danska landsliðinu. Henrik Møllgaard (lengst til vinstri) segir mikinn söknuð af þeim.
Niklas Landin og Mikkel Hansen eru hættir í danska landsliðinu. Henrik Møllgaard (lengst til vinstri) segir mikinn söknuð af þeim. getty/Lars Baron

Henrik Møllgaard viðurkennir að Niklas Landin og Mikkel Hansen skilji eftir sig stór skörð í danska handboltalandsliðinu og talar um tómarúm í þeim efnum.

Í fyrsta sinn í fimmtán ár verður danska landsliðið án Landins og Hansens á stórmóti. Danir freista þess að verða heimsmeistarar í fjórða sinn í röð en HM hefst í næstu viku.

Eftir Ólympíuleikana, þar sem danska liðið stóð uppi sem sigurvegari, lagði Hansen skóna á hilluna og Landin hætti í landsliðinu.

„Það vantar kannski smá styrk og stöðugleika. Þeir hafa verið þarna svo lengi. Þú gast alltaf snúið þér til þeirra og fengið svör, líka heimskuleg svör,“ sagði Møllgaard.

„Það er tómarúm sem þarf að fylla. Því þeir sem eru eftir og búa yfir mikilli reynslu hafa getað verið aðeins til baka og látið þá eldri um að stjórna hlutunum. En núna þurfa þeir að stíga meira upp sem persónuleikar, bæði innan vallar og utan.“

Møllgaard er nýorðinn fertugur. Hann leggur skóna á hilluna eftir tímabilið og tekur við starfi aðstoðarþjálfara Paris Saint-Germain. HM 2025 er því hans síðasta stórmót á ferlinum.

Fyrsti leikur Danmerkur á HM er gegn Alsír á þriðjudaginn. Ítalía og Túnis eru einnig í B-riðli mótsins sem verður leikinn í Jyske Bank Boxen í Herning.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×