Fjallað hefur verið ítarlega um málið í Morgunblaðinu. Í umfjöllun þeirra kom til dæmis fram að vandamálið væri tengt því að hrossatað væri flokkað sem spilliefni og það þyrfti því að farga því. Það mætti því ekki flokka það með lífrænum úrgangi. Þá kom einnig fram að vandamálið væri líka það mikla magn sem safnast fyrir. Einn sem Morgunblaðið ræddi við taldi að þetta myndi auka kostnað hans við hestamannasportið um nær eina milljón árlega.
Í sameiginlegri tilkynningu Sorpu og hestamannafélaganna kemur fram að eftir að losunarstöðvum var lokað í október í fyrra hafi þau fljótlega fundað um verðskrána og að það sé vilji hjá Sorpu til að endurskoða hana. Þá kemur fram að einnig sé horft til annarra lausna.
„Hrossatað er gott efni til uppgræðslu á gróðurvana land sem víða er að finna í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Halda má því til haga að Heiðmörkin, útivistarparadís höfuðborgarsvæðisins, er að miklu leyti grædd upp með búfjáráburði og þá aðallega hrossataðs af höfuðborgarsvæðinu. Fyrirhugað er að funda á næstu dögum með öðrum hagsmunaaðilum að farsælli lausn,“ segir að lokum í tilkynningunni.