Eftir að mál hins sýrlenska Mohammeds Th. Jóhannessonar, áður Kourani, komst í hámæli hefur verið mikið rætt um stöðu þeirra með alþjóðlega vernd hér á landi. Kourani var í júlí dæmdur í átta ára fangelsi fyrir tilraun til manndráps í versluninni OK Market og fjölda annarra brota. Hann hafði meðal annars ofsótt Helga Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknara og fjölskyldu um árabil.
Kallað var eftir því að Kourani yrði vikið úr landi en þar sem hann er hér með alþjóðlega vernd er það ekki hægt. Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hóf athugun á því hvort hægt væri að breyta þeim lögum og afturkalla dvalarleyfi þeirra sem brjóta alvarlega af sér.
Nýr dómsmálaráðherra ætlar nú að sjá til þess að sú vinna klarist.
„Þar hef ég skoðað hvaða útfærslur eru bestar í þeim efnum. Ein leiðin var sú að samhliða því sem menn eru dæmdir fyrir dómi fyrir þannig brot verði hægt að taka þetta til umfjöllunar,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra.
Það verði að vera sátt um flóttamannakerfið á Íslandi svo tekið sé vel við fólki í neyð.
„Það ógnar stuðningi almennings við þetta kerfi ef hér fá að dvelja menn sem hafa gerst sekir um alvarleg brot og þess vegna ætla ég að fara þessa leið og vonast til þess að þetta geti unnist hratt og vel,“ segir dómsmálaráðherra.