Rússar segja mikinn fjölda dróna hafa verið notaða til árásanna og sömuleiðis hafi Úkraínumenn notað vestrænar stýriflaugar.
Ef marka má rússneska herbloggara voru árásir gerðar á skotmörk víðsvegar um Rússland með um það bil tvö hundruð drónum. Flestar árásirnar virðast hafa beinst að hergagnaverksmiðjum, vöruskemmum og olíu- og gasvinnsluinnviðum.
Rússar hafa birt fjölmörg myndbönd af sprengingum og stærðarinnar bálum eftir árásir næturinnar, þrátt fyrir að bloggarar hafi haldið því fram að flestum drónanna og stýriflauganna hafi verið grandað. Varnarmálaráðuneyti Rússlands hefur enn sem komið er lítið sagt um árásirnar, annað en að sex ATACMS eldflaugar og sex Storm Shadow stýriflaugar hafi verið skotnar niður yfir Bryansk-héraði.
Hversu miklum skaða árásirnar ollu er óljóst, að svo stöddu.
Ríkisstjóri Saratov-héraðs í Rússlandi sagði frá því í morgun að árásir hefðu verið gerðar á borgirnar Saratov og Engels, sem liggja vil Volgu. Fjölmargir drónar hafi verið notaðir og að árásirnar hafi valdið skaða á tveimur verksmiðjum.
Skólum í borginni var lokað í morgun vegna elda sem loga þar, samkvæmt frétt Reuters. Sambærileg árás Úkraínumanna á Engels í síðustu viku kveikti eld í olíugeymslustöð sem tók fimm daga að slökkva.
Varnarmálaráðuneyti Úkraínumanna segir árásir meðal annars hafa verið gerðar á olíugeymslu í Engels, efnaverksmiðju í Seltso sem notuð er til að framleiða sprengiefni og annað og tvær olíuvinnslur.
Uppfært: Yfirlýsingu Úkraínumanna hefur verið bætt við fréttina.