Handbolti

„Fíaskó“ og Norð­menn í lítt eftir­sóttan hóp með strákunum okkar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Tobias Schjolberg Grondahl svekktur eftir tap gærkvöldsins hjá þeim norsku.
Tobias Schjolberg Grondahl svekktur eftir tap gærkvöldsins hjá þeim norsku. EPA-EFE/Beate Oma Dahle

Norðmenn töpuðu óvænt fyrsta leik á HM karla í handbolta fyrir liði Brasilíu í Bærum í útjaðri Oslóar í gærkvöld. Það er ekki á hverjum degi sem Evrópuþjóðir tapa fyrir liðum utan álfunnar.

Fíaskóbyrjun segir í frétt TV2 í Noregi um leikinn og kallað eftir breytingum. Ekki að ástæðulausu.

Þeir norsku eru strax komnir í strembna stöðu fyrir milliriðilinn með tapi í fyrsta leik en allar líkur eru á því að þeir brasilísku fylgi þeim þangað eftir þriggja marka sigur þeirra, 29-26, í gær.

Portúgalar og Brasilíumenn leiða E-riðilinn en þeir portúgölsku unnu Bandaríkjamenn 30-21 áður en kom að brasilíska sigrinum. Þau lið mætast á morgun en Norðmenn mæta Bandaríkjunum.

Tap Norðmanna er aðeins það fjórða í sögunni hjá evrópskri heimaþjóð fyrir liði utan Evrópu. Fyrst gerðist það hjá Frökkum sem töpuðu 22-13 fyrir Japönum í París 1970 en strákarnir okkar í íslenska landsliðinu voru aðrir í röðinni.

Ísland tapaði 26-23 fyrir Suður-Kóreu í Laugardalshöll árið 1995 en Svíar eru einnig í þessum lítt eftirsótta hópi þar sem þeir töpuðu afar óvænt fyrir Argentínu 22-27 í Gautaborg 2011. Norðmenn bætast nú í hóp með Frakklandi, Íslandi og Svíþjóð.

Strákarnir okkar hefja leik á HM í dag er þeir mæta Grænhöfðaeyjum í Zagreb klukkan 19:30. Liðinu verður fylgt vel eftir á Vísi í allan dag fram að og eftir leik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×