Erlent

For­sætis­ráð­herrann fyrir­skipar rann­sókn á um­deildri aug­lýsingu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Teikningin þykir afar óheppileg.
Teikningin þykir afar óheppileg.

Auglýsing frá pakistanska flugfélaginu Pakistan Airlines hefur vakið hörð viðbrögð síðustu daga, svo hörð raunar að forsætisráðherra landsins hefur fyrirskipað rannsókn á málinu.

Auglýsingin átti að minna á þá staðreynd að flugfélagið væri að hefja flug til Parísar, höfuðborgar Frakklands á ný eftir nokkurt hlé. Því var birt mynd í helstu miðlum af farþegaþotu félagsins sem virðist vera í þann mund að fljúga beint á Eiffel turninn, helsta kennileiti borgarinnar. 

Með fylgdi textinn: „París, við erum á leiðinni.“ 

Auglýsingin vakti strax hörð viðbrögð og hefur henni verið deilt oftar en 20 milljón sinnum á samfélagsmiðlinum X undanfarna daga. 

Þykir hún minna óþægilega á árásirnar í Bandaríkjunum þann 11. september 2001 en skipuleggjandi þeirra, Khalid Sheikh Mohammad, var handtekinn í Pakistan á sínum tíma og Osama Bin Laden, leiðtogi Al Kaída, var síðan drepinn þar í landi árið 2011. 

Flugfélagið hefur ekki enn tjáð sig um málið en sjálfur forsætisráðherra Pakistans, Shehbaz Sharif, hefur fyrirskipað rannsókn og aðstoðarforsætisráðherrann hefur einnig fordæmt málið, samkvæmt BBC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×