Innlent

Banda­rísk börn sem var saknað fundust í Reykja­vík

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Börnin bjuggu með móður sinni í Canton í Ohio.
Börnin bjuggu með móður sinni í Canton í Ohio. Getty

Tvö börn frá Bandaríkjunum, sem lögregluyfirvöld vestanhafs hafa leitað frá því í október síðastliðnum, fundust á Íslandi 10. janúar síðastliðinn. Börnin voru flutt hingað af móður sinni, með viðkomu á Bretlandseyjum.

Frá þessu er greint á vefsíðu U.S. Marshal Service, sem er löggæslustofnun sem heyrir undir bandaríska dómsmálaráðuneytið og hefur meðal annars það hlutverk að hafa uppi á einstaklingum sem eru grunaðir um brot á alríkislögum og einstaklingum sem hafa flúið úr varðhaldi.

Í tilkynningunni segir að fjölskyldumeðlimur hafi tilkynnt um hvarf barnanna frá Canton í Ohio 25. október 2024. Voru vísbendingar um að móðir barnanna, 34 ára, hefði hætt að taka geðlyf sem hún var á, hefði yfirgefið íbúð sína og tekið börnin úr skóla.

Börnin eru 8 og 9 ára.

Slóð fjölskyldunnar var rakin til Denver í Colorado og þaðan til Lundúna á Englandi og síðan til eyjarinnar Jersey á Ermasundi. Þaðan er móðirin sögð hafa ferðast til afskekkts sjávarþorps á Íslandi en börnin fundust að lokum á hóteli í Reykjavík.

Börnin voru í umsjá barnayfirvalda þar til þau voru sótt af fjölskyldumeðlim en móðirin var lögð inn á sjúkrastofnun þar sem hún mun dvelja þar til hún hefur náð heilsu til að ferðast aftur til Bandaríkjanna.

Haft er eftir Pete Elliott hjá U.S. Marshal Service að það megi ekki vanmeta þann þátt sem samvinna ólíkra aðila átti í því að börnin fundust. Í tilkynningunni er vitnað til þess að lögregluyfirvöld í Canton, bandaríska utanríkisráðuneytið, Interpol og yfirvöld í Englandi og á Íslandi hafi komið að málum.

Þá fékkst fjárhagsaðstoð frá National Center for Missing and Exploited Children til að flytja börnin aftur heim.

Veistu meira um málið? Sendu okkur ábendingu á [email protected]. Fullum trúnaði er heitið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×