Erlent

Þrír látnir eftir loft­á­rás Rússa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Stór gígur var í götunni eftir loftárásina.
Stór gígur var í götunni eftir loftárásina. ap/efrem lukatsky

Þrír eru látnir eftir að Rússar gerðu loftárás á höfuðborg Úkraínu. Ekki er vitað hvert skotmark Rússa var. 

Klukkan sex um morgun á staðartíma lentu rússnesk flugskeyti í Kænugarði, höfuðborg Úkraínu. Þá gerðu Rússar einnig drónaárás. Þrír létust vegna loftárásanna.

Á götu í Shevchenkivskyi hverfinu í Kænugarði er gígur eftir skotflaug af tegundinni Iskander-M samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins. Óljóst er hvert skotmark Rússa var en í sprenginunni eyðilögðust neðanjarðarlestarstöð og vatnsleiðsla. 

Brenndar leifar af sendiferðabíl voru fyrir utan lestarstöðina en að minnsta kosti einn einstaklingur var inni í bílnum.

Úkraínski herinn segist hafa náð að eyðileggja 24 af 39 drónunum og tveimur af fjórum loftskeytum Rússa. Annað loftsketyið hafi þá verið eyðilagt nálægt jörðu og þar af leiðandi valdið miklum skemmdum.

„Það voru þrjár sprengingar í röð, svo var mikið ljós frá eldi á himninum - og byggingin hristist. Þetta var mjög hávært,“ segir Oleksandr, ungur maður sem býr í Úkraínu.

Samkvæmt umfjöllun Reuters réðust Rússar einnig á borgina Zaporizhzhia. Tíu manns særðust í árásinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×