Erlent

Mun færri slasaðir eftir skíða­slysið en talið var í fyrstu

Jón Ísak Ragnarsson skrifar
Skíðasvæðið er í Astún í Pýreneafjöllum.
Skíðasvæðið er í Astún í Pýreneafjöllum. AP

Mun færri eru slasaðir en talið var í fyrstu eftir að stólalyfta féll á skíðasvæði á Spáni. Tíu eru slasaðir og þar af eru tvær konur á gjörgæsludeild.

Slysið varð á skíðasvæðinu í Astún í Pýreneafjöllum, milli Spánar og Frakklands.

Svo virðist sem bilun í búnaði hafi leitt til þess að slakki hafi komið á vír lyftunnar, og sumir stólar hafi hrapað í jörðina og skíðamenn hrapað í snjóinn.

Tugir manna urðu eftir í stólum sínum í allt að fimmtán metra hæð þegar lyftan stöðvaðist, en fengu aðstoð við að koma niður.

Jaimie Pelegri, sem staddur var í lyftunni þegar hún bilaði, sagði við BBC að vírinn hefði misst talsverða spennu áður en stólarnir hans megin hrundu niður.

„Þetta var mjög ógnvekjandi en gerðist mjög hratt,“ sagði hann við BBC.

Í fyrstu var greint frá því að tugir hefðu slasast og þar af minnst sautján alvarlega. Síðar kom í ljós að aðeins sautján hefðu þurft á heilbrigðisaðstoð að halda.


Tengdar fréttir

Margir alvarlega slasaðir á skíðasvæði á Spáni

Tugir eru slasaðir og þar af minnst sautján alvarlega eftir að stólalyfta féll á skíðasvæði á Spáni. Í einhverjum tilfellum er fólk sagt hafa hrapað fimmtán metra til jarðar en engar fregnir hafa borist af dauðsföllum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×