Handbolti

Snorri Steinn getur bætt met Gumma Gumm í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson sést hér einbeittur fyrir leik Íslands og Egyptalands á dögunum.
Snorri Steinn Guðjónsson sést hér einbeittur fyrir leik Íslands og Egyptalands á dögunum. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta hefur unnið fjóra fyrstu leiki sína á heimsmeistaramótinu í ár og jafnar bæði og slær met með sigri í fimmta leiknum í röð í kvöld.

Það eru liðin fjórtán ár síðan Ísland vann fimm leiki í röð á HM í fyrsta og eina skiptið. Því náði íslenska liðið með því að vinna fimm fyrstu leiki sína á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð 2011.

Leikurinn í kvöld er á móti Degi Sigurðssyni og lærisveinum í Króatíu sem eru á heimavelli. Það verður því mjög erfitt fyrir íslenska liðið að halda áfram sigurgöngu sinni.

Það eru reyndar fleiri met í boði fyrir Snorra Stein Guðjónsson og strákana í Zagreb í kvöld.

Snorri Steinn hefur nefnilega stýrt íslenska liðinu til sigurs á sex leikjum í röð á stórmóti því íslensku strákarnir unnu einnig tvo síðustu leiki sína á EM í fyrra.

Ísland endaði EM með því að vinna Króatíu og Austurríki en það dugði þó ekki liðinu til að komast upp úr milliriðlinum.

Sex sigurleikir í röð á stórmótum er metjöfnun. Guðmundur Guðmundsson náði að stýra íslenska liðinu til sigurs í sex leikjum í röð frá 2010 til 2012. Sá fyrsti var bronsleikurinn á móti Póllandi á EM í Austurríki 2010 og hinir fimm voru á heimsmeistaramótinu í Svíþjóð árið eftir.

Guðmundur er hingað til eini þjálfarinn sem hefur stýrt íslenska landsliðinu til sigurs á fimm leikjum í röð á einu stórmóti en því náði hann tvisvar. Fyrst á HM í Svíþjóð 2011 og svo aftur á Ólympíuleikunum í London 2012.

Hér fyrir neðan má sjá lista yfir flesta sigurleiki íslenska landsliðsins í röð á stórmóti.

  • Flestir sigurleikir Íslands í röð á stórmóti
  • 5 sigrar í röð: HM í Svíþjóð 2011 (Guðmundur Guðmundsson)
  • 5 sigrar í röð: ÓL í London 2012 (Guðmundur Guðmundsson)
  • 4 sigrar í röð: HM í Króatíu 2025 (Snorri Steinn Guðjónsson)
  • 4 sigrar í röð: HM í Portúgal 2003 (Guðmundur Guðmundsson)
  • 4 sigrar í röð: HM í Kumamoto 1997 (Þorbjörn Jensson)
  • 3 sigrar í röð: ÓL í Los Angeles 1984 (Bogdan Kowalczyk)
  • 3 sigrar í röð: HM á Íslandi 1995 (Þorbergur Aðalsteinsson)
  • 3 sigrar í röð: HM í Þýskalandi 2019 (Guðmundur Guðmundsson)
  • 3 sigrar í röð: EM í Ungverjalandi 2022 (Guðmundur Guðmundsson)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×