Fá alþjóðasambönd í íþróttum virðast hafa meira yndi af því að hræra í mótafyrirkomulaginu á HM og IHF, Alþjóða handknattleikssambandið.
Frá því liðum var fjölgað úr 24 í 32 á HM 2021 hefur mótafyrirkomulagið verið eins, það er á þremur mótum í röð; á HM 2021, 2023 og 2025 sem enn stendur yfir.
Leikið er í átta fjögurra liða riðlum. Þrjú efstu liðin fara áfram í milliriðla en liðin í 4. sæti riðlanna átta fara í Forsetabikarinn. Liðin sem komast upp úr riðlunum taka með sér stigin gegn liðunum sem fylgdu þeim áfram og spila svo þrjá leiki í milliriðli. Þeir eru fjórir talsins og tvö efstu liðin í þeim komast í átta liða úrslit.

Í þeim tólf milliriðlum sem hefur verið spilað í frá HM 2021 hafa átta stig alltaf dugað til að komast í átta liða úrslit, nema hjá Íslandi í ár.
Sem kunnugt er enduðu Króatar, Egyptar og Íslendingar allir með átta stig í milliriðli 4. Íslenska liðið sat hins vegar eftir sökum lökustu markatölunnar í innbyrðis viðureignum. Sex marka tapið gegn Króatíu, sem var jafnframt eina tap Íslands á mótinu, reyndist rándýrt.
Til að auka enn á svekkelsið hafa lið komist áfram með sjö og jafnvel sex stig síðan nýja fyrirkomulagið var tekið upp fyrir fjórum árum. Á HM 2023 komst Ungverjaland til að mynda áfram með sex stig. Ísland fékk einnig sex stig en Ungverjaland vann leik liðanna í riðlakeppninni og endaði þar af leiðandi ofar.
Katar komst einnig áfram með sex stig á HM 2021 og Egyptaland með sjö stig á sama móti.

Ungverjar komust einnig áfram í ár með sjö stig en þeir hefðu orðið mótherjar Íslendinga í átta liða úrslitum ef okkar menn hefðu fengið stig gegn Króötum eða tapað með minna en þriggja marka mun fyrir þeim. Eða ef Slóvenar hefðu krækt í stig gegn Króötum í gær og rétt Íslendingum þar með hjálparhönd.
Ísland endaði í 9. sæti á HM. Liðið var til að mynda ofar en Noregur (10.), Slóvenía (13.), Svíþjóð (14.) og Spánn (18.). Íslendingar hafa ekki endað ofar á heimsmeistaramóti síðan 2011 þegar 6. sætið var niðurstaðan.
Keppni í átta liða úrslitum á HM hefst í dag. Þá mætast Króatía og Ungverjaland annars vegar og Frakkland og Egyptaland hins vegar. Á morgun eigast svo heimsmeistarar Danmerkur og Brasilía við og Portúgal og Þýskaland.