Baldvin Þór Magnússon sló Íslandsmetið í 3000 metra hlaupi þann 19. janúar síðastliðinn þegar hann hljóp á 7:45,11 mínútum á móti í Sheffield.
Í kvöld sló Baldvin síðan Íslandsmetið í 1500 metra hlaupi þegar hann vann sigur í greininni á Reykjavíkurleikunum í Laugardalshöll. Hann kom í mark á tímanum 3:39,67 mínútur og bætti Íslandsmet sitt frá því fyrir ári síðan um rúmlega sekúndu.
Þetta er annað árið í röð sem Baldvin slær Íslandsmet á Reykjavíkurleikunun en fyrra metið í 1500 metrum setti hann á leikunum í fyrra.
Íslendingar á fullri ferð
Fleiri Íslendingar voru í eldlínunni í kvöld. Kolbeinn Höður Gunnarsson náði sínum besta tíma á tímabilnu í 60 metra hlaupi þegar hann hljóp á 6,91 sekúndu en Gylfi Ingvar Gylfason lenti í þriðja sæti. Eir Chang Hlésdóttir vann sigur í 400 metra hlaupi þar sem Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir varð önnur og Sæmundur Ólafsson vann sigur í 400 metra hlaupi karla.
Þá varð Eir önnur í 60 metra hlaupi og María Helga Högnadóttir lenti í þriðja sæti.

Erna Sóley Gunnarsdóttir setti persónulegt met í kúluvarpi kvenna þegar hún kastaði 17,35 metra. Erna Sóley keppti á Ólympíuleikunum í París í sumar.
Þá vann Þorleifur Einar Leifsson sigur í langstökki karla en Guðjón Dunbar Diaquoi varð annar. Irma Gunnarsdóttir varð önnur í langstökki kvenna og Aníta Hinriksdóttir önnur í 1500 metra hlaupi kvenna og Íris Anna Skúladóttir þriðja.