Í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg segir að stjórnstöð Landhelgisgæslunnar hafi kallað út áhöfn björgunarskipsins Björgu rétt upp úr klukkan fimm í morgun.
„Fiskibáturinn var þá staddur rétt undan Svörtuloftum og rak í norður meðfram landi, aðeins um hálfa sjómílu frá landi. Um 15 mínútum eftir að áhöfnin var kölluð út, klukkan 5:20, var Björg lögð úr höfn og hélt áleiðis á vettvang. Björg var komin að bátnum rúmum 20 mínútum síðar og hófust strax aðgerðir við að koma togi á milli skipanna.
Það gekk vel og rétt fyrir 6 var komin taug á milli og Björgin byrjuð að draga stýrislausa bátinn,“ segir í tilkynningunni.
Skipunum er nú siglt í átt að Rifi.